Pólítísk ranghugsun

Íslensk, pólítísk rétthugsun er stundum fyndin.  Gylfi Ægisson er einmitt staddur í henni miðri um þessar mundir.  Er hótað plötubrennum og þaðan af verra fyrir að hafa orð á því að ef til vill sé Gleðigangan ekki alveg við hæfi ungra barna. Af hverju má hans sjónarmið ekki heyrast?  Jafnvel þótt það jaðri við hommahatur. Sem það gerir reyndar ekki að mínu mati.

Rétthugsunin í kringum málefni samkynhneigðra er orðin svo stæk að fólk er umsvifalaust tekið af lífi á netinu ef það gerir athugasemd við Gaypride eða vogar sér að boða komu sína sem biskup landsins á Hátíð Vonar eftir viku þar sem Franklin Graham hommahatari mun halda tölu.

Mikill vill meira, segir máltækið.  Réttarstaða og lífsgæði samkynhneigðra eru með því besta á byggðu bóli hérlendis.  Umsnúningurinn hefur verið ævintýralegur síðan Hörður Torfason neyddist til að flýja land á áttunda áratugnum. Stuðningur þjóðarinnar er slíkur að Gleðigangan er orðinn annar 17. júni.

En sá stuðningur er sýnd veiði en ekki gefin.  Ef Samtökin ’78 ætla að taka alla af lífi sem þeim finnst halla að þeim orði, þá mun stuðningurinn smá saman hverfa. Mannréttindabarátta er ekki sannfærandi ef umræða í kringum hana er bönnuð.

Hinn þögli minnihluti þjóðarinnar verður að fá að tjá sig án þess að eiga von á opinberri aftöku fyrir skoðanir sínar.  Mig grunar að Frú Biskup sé ekki ein af þeim prestum sem styðja hjónavígslur samkynhneigðra þótt hún segi það ekki berum orðum.  Hún getur það ekki stöðu sinnar vegna, en gerir það þó með því að taka á móti umdeildum syni eins helsta predikara Norður-Ameríku.  Varla eigum við að hengja hana fyrir það?

Færðu inn athugasemd