Heilbrigðiskerfi að hruni komið

Björn Zöega hefur gefist upp sem forstjóri Landsspítalans.  Skömmu eftir að hafa séð drög að komandi fjárlagafrumvarpi.  Eini forstjórinn sem hefur haldið sig innan fjárlaga og skorið inn að beini hjá stofnun sinni í veikrii von um að fá að byggja aftur upp með nýrri ríkisstjórn.  En nei, ekkert slíkt er í spilunum.

Fimm mínútum eftir afsögn Björns tilkynnir Kristján heilbrigðisráðherra að búið sé að finna eftirmann.  Það verði tilkynnt á þriðjudaginn fyrsta október.  Læknaráð spítalans óttast eðlilega að sá forstjóri verði pólítískt ráðinn.  Gárungarnir á netinu tala um að annar hvor Árninn, Matthiesen eða Johnsen muni fylla stöðuna sem bætur fyrir að falla út af þingi.

Fólk býðst við hverju sem er frá stjórninni.  Nóg er hún búin að skíta upp á bak frá því í vor.  Hefur hlaðið undir auðvaldið með því að slá bæði af veiðigjöld og hátekjuskatta.

Steininn mun taka úr þegar lýðurinn kemst að því í október – nóvember að vinnan við leiðréttingu húsnæðislána tefst fram á vorið 2014.  Jafnvel lengur vegna „óvissu“ í efnahagsmálum.

Hundruðir atvinnuleysingja sem síðasta hálfa árið hafa starfað hjá ríki og bæjarfélögum í gegnum Liðsstyrk Vinnumálastofnunar eru að detta aftur inn. Sennilegast inn á reikning bæjarfélaganna.  Ég er einn af þeim heppnu og býðst að minnsta kosti vinna til áramóta.  Jafnvel lengur ef meiri peningur finnst.

Færðu inn athugasemd