Fjárlagafrumvarpið komið fram og fátt sem kemur á óvart frá stjórn hinna ríku stétta. Fátæklingarnir skulu greiða fyrir skattaafsláttinn sem útgerðin og auðuga fólkið fékk í morgungjöf eftir kosningar. 0g ekki eitt orð um loforðið sem kom Framsókn í stjórn; að leiðrétta húsnæðisskuldir landsmanna. Það er nefnilega í nefnd út nóvember. Og sennilega lengur með framlengingu þegar þar að kemur.
Og meira er í vændum þegar hagræðingarhópur Vigdísar Hauksdóttur ropar loks upp úr sér sínum tillögum. Samkvæmt henni eiga þær að mynda milljarða svigrúm sem má svo nota í heilbrigðiskerfið. Svigrúm þar sem til að mynda styrkir til landbúnaðarins „eru ekki undir“ frekar en fyrri daginn hjá fjósafasistum.
Mér verður illt í hvert sinn sem ég sé Vigdísi, Gunnar Braga utanríkisráðherra eða Sigurð Inga landbúnaðar-, sjávarútvegs-, og umhverfisráðherra tjá sig í sjónvarpsfréttum. Þau eru svo miklir búrar. Svo illilega úr tengslum við samtímann. En kannski er svo einnig farið fyrir meirihluta þjóðarinnar sem kaus þessa hrunbófaflokka aftur yfir sig af trúgirninni einni saman.
Katrín Jakobsdóttir átti tvö flottustu orð eldhúsdagsumræðanna: http://www.misskilningur.is (ríkisstjórnin) og nýr gistináttaskattur (legugjaldið). Er engu síður mælsk en fyrrverandi formaður VG, Steingrímur Joð. Jafnvel Árni Páll kom mér á óvart. Píratarnir glöddum mig þó mest óháð skoðunum þeirra. Eru án efa frjálslegasti og myndarlegasti flokkurinn á Alþingi.
Sigmundur Davíð mun ekki fá þá þægu stjórnarandstöðu sem hann bað um í stefnuræðu sinni. Sem var í raun fasísk á köflum um eitthvert fyrirmyndarríki sem myndi birtast ef allir yrðu nú sammála ríkisstjórninni eins og hendi yrði veifað og létu af röfli og aðfinnslum. Maðurinn er eitthvað veruleikafirrtur. Völdin strax farin að segja til sín: http://www.jonas.is/einn-tali-fyrir-alla/ Davíð Oddsson bliknar jafnvel í samanburði.
Við erum okkar verstu óvinir. Því miður! Kjósum tóma fávita inn á þing sem svo fokka öllu upp aftur og aftur. Við eigum okkur ekki viðreisnarvon. Jafnvel áfengisskattar verða hækkaðir hjá þessari stjórn sem var svo á móti hækkunum fyrri stjórnar (VG). Tóbaksgjaldið mun einnig hækka. Flestir flokkar virðast halda að syndir landsmanna séu tekjulind sem endalaust má sækja í af meiri krafti.
Mennta og menningarmál fá á kjaftinn frá nýrri ríkisstjórn enda ekki hrifin af lattélepjandi gáfufólki sem rífur í sífellu kjaft. Skráningargjöld í HÍ upp í 75.000 kr. til að vega örlítið á móti niðurskurðinum þar. Framhaldsskólar verða sveltir duglega svo ungt fólk gangi síður menntaveginn. Bókleg menntun er fyrir ríkt fólk. Aðalinn. Áfram MR og Verzló! Restin getur farið að vinna verkamannastörf eða reynt að komast inn í Iðnskólana.
Sumarið sem aldrei kom er liðið og ég er strax kominn með upp í kok af ríkisstjórn bófaflokkanna. Vona svo innilega að þjóðin átti sig og rísi upp gegn silfurskeiðabandalaginu í lok nóvember þegar verður ljóst að húsnæðislánin verða ekki leiðrétt. Að loforð um slíkt var bara blekking. Ryk í augu skuldsettra kjósenda.
Hefðum betur leyft vinstristjórninni að ljúka sínum verkum á næstu fjórum árum. Getur ekki hafa orðið verra en bjánarnir sem nú ráða málum. Gerum búsáhaldabyltingu fyrir áramót! Framtíð landsins veltur á því. Lifum ekki af fjögur ár undir núverandi stjórn.