Strætó er ágætis samgöngumáti ef væri ekki fyrir hina farþegana. Ótrúlegt lið sem slæðist inn í vagnana. Um daginn var þar dauðadrukkinn eldri borgari sem var búinn að pissa á sig og slefaði á eftir öllum konum sem komu inn í vagninn.
Vikuna þar á undan komst ég að því að óráð sé að sitja aftast, því þangað leita símadrengirnir sem geta ekki ferðast á milli A og B án þess að röfla í farsímana sína. Orð þeirra eru svo mikilvæg að fimmtán mínútu túr með strætó má ekki kljúfa í sundur samhengislaust röflið í þeim.
Í gærmorgun neyddumst við að hlýða á hálfvita sem hló hátt og snjallt hrossahlátri hluta leiðarinnar. Rosalega var gaman þegar hann loks drullaðist út við Kringluna ásamt félaga sínum. Var kominn að því að handrota kvikindið.
Ég er frekar skrítinn … og þó. Fyrir mér eru almenningsvagnar eins og bókasöfn. Þar á ró að ríkja. Fólk á ekki að hanga í farsímum eða öskra eins og andskotar þegar þau hlæja. Hvernig væri að sýna smá virðingu gagnvart hinum farþegunum sem vilja njóta kyrrðar á leið heim til sín að vinnudegi loknum.