Sjálfsálit stjórnarflokkanna í borginni er fáranlegt. Telja sig þess umkomna að bjóða fram úrelta gaura á síðasta söludegi og jafnvel vekja upp spillingarpésa sem sat beggja megin borðsins í borgarstjórnartíð Hönnu Birnu. Trúa því virkilega að trúgirni kjósenda vari fram á næsta vor.
Nei, þolinmæðina þrýtur í næstu viku þegar niðurfellingatillögur stjórnarinnar koma fram og reynast vera hvorki fugl né fiskur. Eitthvert samsull skattaívilnana og lífeyristengdra afslátta sem koma fáum sem engum til góða nema kannski þeim tekjuhæstu. Og á endanum lendir kostnaðurinn á skattgreiðendum en ekki kröfuhöfum bankanna.
En vonandi hef ég rangt fyrir mér. Vonandi koma tillögurnar þeim til góða sem hafa staðið vaktina og greitt samviskusamlega af sínum eignum í gegnum hrunárin í stað þess að láta allt fara til fjandans. Fólkið sem Sigmundur Davíð kallar millistéttina og hefur enn enga leiðréttingu fengið.
Forsagan vekur þó hjá mér ugg. Skærur forsætisráðherra við Seðlabankann í síðustu viku og stöðugt tal hans um að stjórnarandstaðan ætli sér að vera á móti tillögum hans segja mér að Sigmundur sé að reyna að byrgja brunninn fyrir fram. Búa til sökudólga til að benda á þegar fólkinu finnst ekki nóg hafa verið gert.