Nú mega jólin koma fyrir mér

Þá getur þjóðin loksins haldið Jól.  Skuldaniðurfellingatillögurnar komnar fram og reynast auðvitað vera fugl í skógi.  Fjármögnun annars vegar séreignarlífeyrir landsmanna sem er löngu uppurinn og svo bankaskattur sem óvíst er að standist lög.

Engir 200 milljarðar beint frá hrægammasjóðunum og ávísun STRAX í pósti. Reyndar er „strax“ teygjanlegt hugtak samkvæmt Vigdísi Hauksdóttur.  Jafnvel heilt kjörtímabil eins og tillögurnar segja til um.  Alveg eins og mig grunaði.

Nú get ég loksins fullyrt að fjórðungur kjósenda séu trúgjarnir og barnalegir bjánar. Hvað voruð þið að hugsa með að gera þennan trúð að forsætisráðherra! Þá var nú hin norræna velferðarstjórn skárri.  Hún lofaði þó ekki svona illilega upp í ermina á sér.  Notaði reyndar orðið „skjaldborg“ eftir kosningar.  Eitthvað sem hún gat ekki staðið við frekar en núverandi stjórn.

Rétt er að leyfa hátíðunum að líða og efna svo til annarrar búsáhaldabyltingar á nýju ári.  Eða einfaldlega ljúka þeirri sem hófst fyrir fimm árum síðan. Augljóslega misráðið að rétta hrunflokkunum aftur völdin.  Hafa ekkert lært.  Kunna ekki að skammast sín.  Fjögurra ára hvíld var greinilega ekki næg.

Því miður óttast ég að samlandar mínir muni bara malda í móinn og smyrja afturendana meira fyrir komandi tíð.  Beygja sig betur í veikri von um að sársaukinn minnki.

Færðu inn athugasemd