Finnst ég vera orðinn full rólegur og eftirlátssamur við yfirgangsseggi á förnum vegi. Ég vík úr strætóskýlum þegar aðrir reykja í stað þess að reka þá út. Vík til hliðar þegar fólk þrammar að mér á göngustígum í stað þess að halda til streitu hægri/vinstri reglunni eins og á vegum landsins.
Í síðustu viku hrækti náungi að mér rétt áður en hann gekk fram hjá mér. Ég sagði ekki orð. Þegar ég hefði átt að rífa í gaurinn og skalla duglega fyrir ósvífnina. Skil ekki þennan aumingjaskap í mér. Sennilega ótti við átök. Þoli ekki slagsmál.
En stundum þarf að slást. Láta vaða og gagnrýna þegar einhver er að drulla yfir mann. „The only thing for the triumph of evil is for good men to do nothing“ ritaði Edmund Burke á átjándu öld.
Yfirgangsseggi þarf að stöðva því annars vaða þeir yfir okkur aftur og aftur. Hvort heldur sem þeir heita Sigmundur Davíð, Bjarni Ben., Gunnar Bragi, Illugi, Hanna Birna, Vigdís eða Vladimir Putin.
Næsti yfirgangsseggur verður skallaður taki hann ekki rökum. Nenni ekki lengur að lúffa fyrir hellisbúum. Kominn tími til að bera smá virðingu fyrir sjálfum mér. Setja mig og mín gildi í fyrsta sæti.