Frekja hinna fáu og háværu

Þoli ekki þegar fólk segir að ekki megi breyta hlutum til batnaðar því svona hafi þetta „alltaf“ verið.  Ekki má selja áfengi ásamt matvöru því tæknikratar landsins vilja hafa vit fyrir fólki sem kann sér ekki hóf í drykkjunni. Þess vegna má ekki heldur slá af hæstu ofurskatta á byggðu bóli af guðaveigunum.  Ríkið þarf á þeim að halda til að sukka og svínast með.  Ekki fara þeir til forvarnar- og meðferðarmála.  Svo mikið er víst.

Ekki má flytja inn ferskt kjöt því bændamafían er á móti því.  Vill fá að sitja ein að markaðinum og rukka okkur neytendur í rassinn fyrir hvern kjötbita.  Röfla svo um matvælaöryggi og að við séum að greiða fyrir gæði og hreinleika vörunnar.  Gott og vel.  Megum við samt ekki prófa „hreint“ kjöt frá öðrum löndum líka?

Meirihluti þjóðarinnar vill ljúka viðræðum við Evrópusambandið og svo kjósa um aðild.  Hrunflokkarnir sem eru nú við stjórn taka það ekki í mál og vilja slíta viðræðum.  Ráða þar hagsmunir kvótagreifa og kaupfélagsstjóra úr Skagafirði.  Ekki þjóðarinnar.

Þegar ég fer í Iceland og Kost þá rennur í ljós fyrir mér að verslanir landsins selja flestar sama draslið.  Allar nema þessar tvær.  Þess vegna geri ég mér reglulega ferð í þær.  Jafnvel þó þær séu úr leið fyrir strætógaur eins og mig.

Nei, hérna má engu breyta vegna frekju hinna fáu og háværu.

Færðu inn athugasemd