Upp á heiði með heila klabbið!

Skömm er að kjörsókninni.

Ef fólk nennir ekki á kjörstað þá velja aðrir fyrir þau.  Einfalt!  Og það gerðist núna.  Að greiða atkvæði er helgur réttur en jafnframt heilög skylda.  Ekkert til að hafa í flimtingum eftir baráttu formæðra okkar og feðra fyrir þessum réttindum.  Þegar ég sting atkvæði mínu í kjörkassann, geri ég það minnugur baráttu kynslóðanna á undan á mér.  Væri óskandi að fleiri gerðu slíkt hið sama.

Sama sveitta ástandið heldur áfram í mínum heimabæ.  Eins gott að hafa varann á sér og horfa hræddur um öxl. Þetta lið er til alls víst.  Björt Framtíð er þó skárri en Framsókn sem hækja íhaldsins.  Reykjavík er á brúninni ef Sóley og/eða Halldór pírati ganga ekki í lið með fráfarandi meirihluta.  Mega ekki hleypa gömlu íhaldi að með tvær framsóknarskessur í farangrinum.

Útvarp Saga hefur þyngri slagkraft en fólk heldur.  Ljóst er að 10,5% kusu gegn Mosku í Sogamýri.  Af skipulagsástæðum eða trúarástæðum vitum við ekki alveg. Plottið virkaði þó snilldarlega og tveir borgarfulltrúar komust inn í staðinn fyrir engan áður.  Ólíkt félögum sínum í ríkisstjórninni mun þeim þó sennilega ekki gefast mikið færi á að efna kosningaloforðið og hrifsa lóðina aftur til borgarinnar.  Ekki að skuldaleiðrétting.is séu efndir á loforðum.

Ég skil reyndar skipulagsástæðurnar.  Er þessi lóð ekki útivistarsvæði fyrir nágrennið?  Og hvað með grenndarkynninguna.  Af hverju mega íbúarnir ekki ráða einhverju um skipulag síns hverfis.  Minnist þess þegar troða átti Digraneskirkju á friðaðan Víghólinn í Kópavogi.  Var byrjað að grafa og allt þegar loks var hlustað á mótbárur.  Fyrir utan gildi hólsins sem útsýnisstaðar og útivistarsvæðis.

Auðvitað á að kjósa um staðsetningu trúarbygginga; kirkna, moska og hofa. Eins þegar hola á hótelum niður í gróin íbúðarhverfi.  Þvílík fásinna sem það er nú.  Er ekki bara hægt að byggja heilan klasa af kirkjum, moskum, hofum og hótelum upp á Hólmsheiði við hliðina á væntanlegu fangelsi?  Þá fáum við loksins frið fyrir trúarnötturum, túristum, gróðapungum og Hraunurum; öllu glæpahyski á einu bretti.  Vantar bara stjórnmálamennina og þá væri næstum fullkomið að búa hérna.

Færðu inn athugasemd