70 ár eru liðin frá innrásinni í Normandy sem markaði upphafið að endalokum Þriðja ríkissins. Er ekki viss um að margir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að tugþúsundir ungra bandarískra, breskra, kanadískra, ástralskra, franskra, pólskra, belgískra, nýsjálenskra, tékkneskra, grískra og jafnvel norskra sjálfboðaliða fóru yfir Ermasundið milli Bretlands og Frakklands til að frelsa Evrópu undan oki nasismans.
Gegn einu sterkasta herveldi sem nokkurn tíma hafði gengið á þessari jörð. Gegn kristnum bræðrum sínum sem sumir hverjir voru jafnvel náin skyldmenni. En ekkert annað var í stöðunni. Hitler gafst ekki upp fyrirfram. Hafði í raun enga trú á getu Bandamanna. Hroki og oftrú á eigin getu varð honum loks að falli. En til þess þurfti blóðugt stríð sem kostaði allt of mörg líf.
Fyrir nokkrum dögum síðan dó síðasti Navajo indíáninn af þeim upprunalegu 29 sem sömdu dulmál Bandaríska hersins í seinna stríði. Eina dulmálið sem var aldrei leyst og varð til þess að sigur vannst í Kyrrahafi gegn Japönum. George Bush yngri má eiga það að hafa heiðrað þessar gleymdu hetjur í sinni forsetatíð.
Gömlu hetjunum fer sífellt fækkandi, enda flestir komnir á tíræðisaldur. Er þó eitthvað svo hughreystandi að sjá myndir af þeim í hjólastólunum og göngugrindunum sínum í Frakklandi. Studda af ungum hermönnum sem vonandi þurfa aldrei að fylgja í þeirra fótspor og geta lokið sinni hergöngu án þess að hleypa af skoti.
Frelsið er dýrmætt og háu verði greitt. Megum aldrei taka frelsinu sem gefnu og sjálfsögðum hlut. Hundruðir þúsunda féllu í seinna stríði í uppgjöri milli frelsis og helsis. Frelsið vann. Gleymum því aldrei! Lífið er sífelld barátta við að viðhalda og bæta það frelsi sem hermenn og óbreyttir borgarar guldu fyrir með lífi sínu í seinna stríði.