Ég er svona og þannig vegna þess að hann eða hún gerðu hitt eða þetta sem hafði slæm áhrif á líf mitt. Dreg það í efa. Hver hlýtur að vera sinnar gæfu smiður. Í gegnum lífið verðum við fyrir áföllum. Sum þeirra eru öðrum um að kenna. Önnur okkur sjálfum. Það heftir okkur fyrir lífstíð að benda sífellt fingri í stað þess að líta í eigin barm.
Reiðin er okkar versti óvinur. Og færir okkur nær myrku hliðinni (the dark side). Alveg eins og Yoda segir í Stjörnustríði. Hatur étur okkur upp að innan og heftir okkur frá því að lifa eðlilegu lífi. Fyrir utan það eru þessar tvær neikvæðu tilfinningar tímasóun. Lífið er of stutt til að veita þeim nokkuð rými.
Fólk sem veltir sér upp úr reiði og hatri alla daga kemst ekkert áfram í lífinu. Er fast í eigin sjálfskaparvíti. Eyðir tíma sínum í að benda á aðra og kenna um vansæld sína. Í stað þess að rífa sig upp úr sófanum og gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggjandi. Lifa.