Verslunarfrelsið

Jón Sullenberger fagnar mögulegri komu Costco inn á íslenska markaðinn. Það nægir mér að maður sem hefur neyðst til að berjast fyrir lífi sínu gagnvart íslensk/evrópsku regluverki síðustu fjögur árin sé sáttur.  Hann hefur þurft að líma límmiða ofan á límmiða á ameríska vöru sína.  Rétt eins og að þjóðin skilji ekki ritaðar enskar innihaldslýsingar.

Skítt með Evrópusambandið og fríverslunarsamninginn við Kína.  Við eigum auðvitað að opna fyrir sem flestum. Vera háð engum en í sambandi við sem flestar þjóðir.  Viðskiptavinir Costco greiða ríflega sex þúsund krónur á ári til að vera meðlimir og fá í staðinn að versla mun ódýrari vöru.

Heykvíslaliðið hefur áhyggjur af kröfum um undanþágur frá áfengislögum og innflutningi á hráu kjöti.  Costco greiðir hærri laun en íslensk lágmarkslaun. Og er mun betur liðið en Walmart keðjan.  Costco hefur aðlagað sig að lögum og reglum hvers ríkis en þrýstir jafnframt á að fá að selja lausasölulyf, áfengi og eldsneyti yfir borðið á lægra verði.  Rétt eins og allar aðrar vörur sínar.

Framsókn og Vinstri – Grænir munu reyna koma í veg fyrir komu Costco inn í landið.  Verslunarmafían mínus Sullenberger mun aðstoða.  Neytendur mega einfaldlega ekki sjá dagsljós.  Eiga bara að dvelja í myrkri einokun og okri. „Það er svo dýrt að flytja inn vörur því við erum á eyju.“  Mætti halda að við byggjum undir yfirborði jarðarinnar.

Okkar vandamál varðandi verslun er bændamafían og afturhaldssinnar sem vilja enga erlenda samkeppni. Þora einfaldlega ekki að taka þátt í henni. Hin íslenska framleiðsla á að vera sú eina sem við getum neytt.  Annað er eitrað drasl.  Þvílíkt bull og vitleysa!

Er komið nóg af því að smákóngar útgerðar og landbúnaðar skammti okkur verslunarfrelsi og vörur.  Hér gæti verið svo mun betra að búa ef við fengjum að velja og ráða sjálf.  Íslenskir framleiðendur þurfa ekki að örvænta.  Vörur þeirra munu seljast áfram í sama magni.  Enda gæðavara.

Færðu inn athugasemd