Kannski er öll þessi rigning boðberi betri tíma fyrir höfuðborgarsvæðið? Með þessu áframhaldi mun borgin breytast í regnskóg sem mun dreifa súrefni jafnt til Evrópu og Ameríku. Aspir hafa hækkað um hálfan metra síðan í vor og virðast ekkert ætla að slá af. Bráðum munu snákar og stærðar köngulær verða sjálfsögð viðbót við dýraflóru landsins.
66° Norður munu framleiða léttan regnfatnað fyrir túristana sem hanga niður í miðbæ og súpa suðrænan bjór frá brugghúsum landsins. Corona og Sol munu fá verðuga samkeppni. Kúbverskir rommdrykkir ryðja vodkablöndum úr vegi. Frumstæðir þjóðflokkar frá Amazon flykkjast hingað í betri aðstæður.
Ekki veit ég af hverju ég er að hanga hérna. Spurning um að stíga upp í rútu í komandi sumarleyfi og bruna norður eða austur á land með tjald. Liggja þar og brenna á mér skallann. Nema náttúrulega að sólin láti sjá sig fyrstu tvær vikurnar í ágúst. Sætti mig við þurrk og ský.