Fall ráðherra

Rosalega er sorglegt að fylgjast með Hönnu Birnu innanríkisráðherra grafa sér sífellt dýpri gröf með degi hverjum. Eitt sinn var ég á því að hún ætti að verða formaður Sjálfstæðisflokksins og myndi þannig brúa bil milli flokka í gegnum samráðspólitík sína sem hún hafði stundað í borginni.

En nei, um leið og hún varð ráðherra breyttist allt.  Tóm frekja og valdhroki dreypir af henni.  Þykist ekkert rangt hafa gert með því að leka út upplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla til þess eins að geirnegla brotthvarf hans frá landinu.

Eitthvað sem átti bara að vera smámál innan ráðuneytisins milli Hönnu Birnu og aðstoðarmannanna tveggja hefur blásið upp í fjölmiðlum fyrir dugnað blaðamanna DV.  Sömu blaðamanna sem ráðherrann heimtaði að yrðu reknir í símtali við ritstjórann.

Og nú reynir Hanna Birna að snúa sér út úr málinu með því að þykjast vera fórnarlamb pólítískra ofsókna.  Og eina manneskjan í ríkisstjórninni sem sýnir henni stuðning er peysufatakerlingin Sigrún Magnúsdóttir formaður þingflokks Framsóknar.  Restin af stjórninni heldur að sér höndum og bíður þess sem verða vill; að Hanna Birna segi af sér ráðherradómi.

Lærifaðir Hönnu Birnu hlýtur að hrista hausinn einmitt núna.  En hann segir í sífellu: „Þegar þú ert kominn í holu, hættu þá að moka.“  Samt mokar Hanna áfram eins og enginn sé morgundagurinn.

Færðu inn athugasemd