Merkilegt mont lögreglunnar í Vestmannaeyjum yfir gæslu sinni í dalnum. Lögðu alla áherslu á fíkniefnaeftirlit og að elta uppi neytendur með smáskammta. Væri gaman ef áherslan hefði verið að að tryggja öryggi Þjóðhátíðargesta fyrir ofbeldi og nauðgunum. Svo gamaldags að beina öllum kröftum lögreglunnar í eltingarleik við neytendur ólöglegra efna meðan dalurinn er fullur af krókódílamönnum með höfuðin full af ljótum hugsunum.
Enn sem er hefur ekkert heyrst af nauðgunum í Herjólfsdal. En sagan segir okkur að slíkar tilkynningar berast ekki fyrr en í vikunni frá hátíðinni. Og þá bara frá hugrökkustu stúlkunum en dómatölfræðin er ekki beint hvetjandi. Það er nefnilega gott að vera nauðgari á Íslandi. Sönnunarbyrðin er svo þung að fórnarlömbin þurfa helst að mæta með vitni, myndband og stimplað vottorð um glæp með sér á lögreglustöðina. Jafnvel þá er þeim sjálfum kennt um glæpinn vegna klæðnaðar eða ölvunar.
Komið er við fórnarlömb nauðgana eins og dádýr sem verða viðskila við hjörðina og lenda í klóm rándýra. Geta bara sjálfum sér um kennt. Og nánast er viðurkenndur réttur rándýranna til að ráðast á viðskila einstaklinga og nauðga. Eins og nauðgun sé eitthvers konar náttúrulögmál sem verður ekki breytt.
Fyrr á öldum pössuðu vinnukonur sig á að ganga efri leiðina milli bæja til að minnka líkurnar á að vera nauðgað því karlmenn á förnum vegi voru oftar en ekki komnir með buxurnar niður að ökklum þegar þeir mættu þeim á aðalveginum. Hefur virkilega ekkert breyst síðan þá?