Það mátti skoða þessa aðra flughæfu Lancaster sprengjuvél úr seinna stríði niður á Reykjavíkurvelli í hádeginu. Fyrst var ég voða æstur en svo fór ég að hugsa um Gaza og áhuginn dvínaði aðeins. Reyndar nennti ég ekki að hlunkast niður á völl.
Að varpa sprengjum á óbreytta borgara er varla hetjuverk. Þrátt fyrir að þú fórnir lífi þínu við það. Ég skilaði inn ritgerð í sagnfræði um Hiroshima fyrir milljón árum. Lagðist í það efni sem ég gat fundið um hugmyndafræðina á bak við loftárásir.
Aðalkenningin kvað á um að loftárásir myndu veikja baráttuvilja andstæðingsins. Sú kenning var hrakin í seinna stríði af þýsku og japönsku þjóðunum. Loftárásir gera lítið annað en að drepa óbreytta og eyðileggja vatnsveitur, rafmagnsveitur, skóla og sjúkrahús. Byggingarnar má endurbyggja en lífin eru glötuð. Baráttuandi fólksins deyr hins vegar seint. Rétt eins og hjá fólkinu á Gaza einmitt núna.
Í seinna stríði flugu tíu til ellefu manna áhafnir sprengjuflugvélum eins og Avro Lancaster og B-17 Flying Fortress yfir Þýskaland. Helmingslíkur voru á að þú snerir aftur úr slíkri feigðarför vegna loftvarnabyssa og orrustuvéla þýska hersins. Hetjudáðin var að snúa aftur heim, ekki að fleygja sprengjunum.
Lancastervélin sem millilenti hér er merkileg heimild. Gott framtak að varðveita sögulegar menjar eins og hana og halda henni gangandi. Skilst að þessi vél hafi ekki verið notuð sem sprengjuvél, heldur til leitar og björgunar.
Sprengjuvélar með fjölmennri áhöfn heyra sögunni til. Nú eru notaðar eldflaugar og ómannaðir drónar til að dreifa dauða að ofan. Nútíma stríð er tölvuleikur á skjá. Einstaka sinnum fá orrustuþotur að sanna sig líkt og núna gegn ISIS óþverrunum í Írak.