Veðrið var gott og ég dröslaðist með mömmu í strætó til að fylgjast með gleðigöngunni. Leið eitt og tvö úr Hamraborg fylltust fljótt. Tókum því fjarkann niður á Hlemm og skakklöppuðumst þaðan niður í miðbæ. Nóg pláss í vagninum og ekkert vesen.
Skömmu síðar tóku að birtast fréttir á vefnum að stútfullir vagnar ækju framhjá fullum biðskýlum af fólki. Kerfið sprakk í kringum tvö. Og svo aftur seinnipartinn þegar lýðurinn hélt heim á leið.
Sama á eftir að gerast á menningarnótt eftir tvær vikur. Svona er þetta bara. Erfitt að reikna út fjöldann fyrirfram á þeim sem munu nota almenningssamgöngur. Eða svo segja þeir hjá Strætó. Nægir reyndar að fylgjast með veðurspánni og áætla út frá henni.
Annars var þetta fín bæjarferð. Hittum nokkra ættingja meðan við sátum eins og rónar á bekk á Austurvelli og hvíldum lúin bein. Nutum sólarinnar þegar hún lét sjá sig. Komum okkur loks heim þegar stemningin var að verða sveitt og kólna tók í lofti.
Svanurinn hans Páls Óskars stóð upp úr sem atriði göngunnar. Hafa reyndar oft verið flottari vagnar en í ár en þátttakan var góð og flestir í góðum gír. Fullu gaurarnir á Arnarhóli voru þó dálítið eins og álfar út úr hól meðan skemmtiatriðin voru á sviðinu. Sást varla vín á öðru fólki.