Borgarablús

Skil ekki alla þessa hamborgarastaði sem virðast spretta upp með reglulegu millibili. Að minnsta kosti einn í hverjum mánuði. Enn ein Hamborgarabúlla Tómasar hefur skotið upp kollinum í sjálfum Kópavogi. Ég slæddist þar inn síðdegis í gær í miðjum göngutúr og pantaði plain hamborgaramáltíð. Tæpur átjánhundruð kall fyrir barnaborgara og barnaskammt af frönskum og lítið glas af gosi. BRAVÓ! Fór sársvangur aftur út.

Ég raðaði þessum allt í lagi borgara ofan í mig en fattaði svo þegar örfáu franskarnar voru eftir að ég hafði gleymt gosinu. Fór því og sótti það en sneri aftur að tómu borði því ofurduglega afgreiðslustúlkan hafði hreinsað allt af því á þessari hálfu mínútu sem ég sneri mér við. Gat ekki annað en hlegið þegar liðið bauð mér aukafranskar í skaðabætur. Þakkaði bara fyrir mig og gekk út þess fullviss að borða ALDREI aftur á þessari búllu.

Þá er nú American Style með mun betri, ódýrari og stærri máltíð. Auk áfyllingarinnar á gosinu. Svo var einhver að segja mér að Kebabborgarinn á Saffran sé ljúffengur. Og Vitaborgarinn stendur víst alltaf fyrir sínu þó Vitabar sé enn sami sveitti þynnkustaðurinn. Ferstikluskálinn í Hvalfirði er með girnilega borgara fyrir þá sem nenna í smá bíltúr samkvæmt einhverjum á ÍNN.

Flest er betra og stærra en þessi sýnishorn af mat og móðgandi hraða tiltektarþjónusta á Búllunni við Dalveg. Rétt eins og maður eigi helst að drösla sér þaðan út sem fyrst og alls ekki fara að lesa laugardags DV eins og ég dirfðist til. Samt var þessi hola nær tóm af fólki.

Færðu inn athugasemd