Hrun II

Nú sit ég frábært námskeið í sagnfræði niður í Háskóla Íslands sem Guðni Th. Jóhannesson kennir. Það fjallar um hrunið. Reyndar stutt liðið frá því en þeim mun „skemmtilegra“ að fara yfir græðgi og fífldirfsku áranna fyrir og sjálft hrunið. Við vorum svo blind.

Nú stefnir í næsta hrun. Að minnsta kosti miðað við fjölda byggingarkrana í borginni. Bílalánin eru komin aftur á kreik. Greiningardeildir bankanna byrjaðar aftur að þenja raddböndin í fréttatímum ljósvakamiðlanna. Gervihagkerfi bankanna farið á fullt. Greinilega að opnast lánalínur út í hinum stóra heimi þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Eða erum við bara aftur farin að lána sjálfum okkur með peningum sem eru ekki til?

Reisa á 18.000 fermetra einkarekna læknamiðstöð í Lindunum í Kópavogi á niðurgröfnum grunni 12.000 fermetra verslunarmiðstöðvar fyrir hrun.  Fyrsti kraninn er risinn.  Sá það með eigin augum í gær þegar ég fór í Elko og Krónuna. Landspítalinn má fara að undirbúa lokun.  Amerískt heilbrigðiskerfi hinna ríku með tryggingakerfi einhvers flokksdindils úr Sjálfgræðgisflokknum er handan hornsins.

Og til að slá ryki í augu okkar meðan þessir tveir flokkar ræna því sem eftir stendur af íslensku velferðarkerfi, þá gasprar fyrrverandi lögga og bindindismaður um sölu á áfengi í matvörubúðum.  Frumvarp sem verður aldrei samþykkt frekar en fyrri daginn að það var flutt.  Athyglinni skal beint annað meðan bófaflokkarnir tveir fremja sína glæpi gegn þjóð sinni.

Færðu inn athugasemd