Von Íslands er umburðarlyndi

Samskipti fólks eru æðisleg. Þegar ég djammaði sem mest niður í miðbæ reyndu iðulega við mig ráðsettir heimilisfeður sem voru ekki enn komnir út úr skápnum. Viðbrögð mín voru vanalega sú að afþakka kurteisislega viðreynslur þeirra og svo hvetja þá að gera hreint fyrir sínum dyrum og gangast við kynhneigð sinni. Meira gat ég ekki gert.

Hefði ég verið durgur eins og megnið af íslenskum karlpeningi er, hefði ég skallað gaurana fyrir að sýna mér áhuga og svo sparkað í þá liggjandi. Er sem betur fer ekki þannig gerður. Var reyndar upp með mér yfir áhuga þeirra. Lyfti sjálfstraustinu aðeins upp. Fannst verra að þeir væru ekki alveg komnir út úr skápnum og búnir að finna sig.

Auðvitað hefði ég getað „prófað“ einu sinni bara svona upp á grínið. Hef bara ekki áhuga á því. Ég hallast of mikið að konum. Sem er kannski synd því að möguleikar mínir liggja hjá samkynhneigðum körlum. Konurnar líta ekki við mér. Eldri hommi í Krónunni lét mig varla í friði um daginn. Ég roðnaði og varð hálf vandræðalegur og feiminn.

Sem er frábært. Í öðrum löndum fengi þessi eldri samkynhneigði karlmaður ekki að njóta sín og daðra við mig. Ég er svo þakklátur fyrir að hann getur óáreittur reynt við mig í stórmarkaði án afleiðinga. Þannig á heilbrigt samfélag að vera. Kannski er umburðarlyndið eina auðlegðin sem eftir er í þessu landi.

Færðu inn athugasemd