Allt að verða vitlaust því krakkakríli eru leidd til kirkju í aðventunni til að fylgjast með helgileiknum um Jesú. Engu líkara en að verið sé að mata blessuð börnin á boðskap ISIS samtakanna. Ein andskotans heimsókn í kirkju og sumir foreldrar fara úr límingunum. Sjá fyrir sér afkvæmi með messuhald í stofunni heima í kjölfarið.
Man reyndar ekki eftir því sjálfur að hafa farið í slíka heimsókn sem lítill strákur en þó eftir að kennarinn hafi lesið upp söguna um fæðingu frelsarans í einhverri hlöðu í Betlehem. Man að mér fannst hún svo fjarlæg. Bæði í tíma og reynsluheimi. Skyldi ekkert í því af hverju hann fæddist í sandbala fjarri öllu.
Auðvitað á ekki að neyða grunnskólanemendur til að mæta til kirkju. Hvorki til að hlýða á helgisögur eða í fermingarundirbúning. Þau hljóta að ráða því sjálf. En að sleppa sér í hvert skipti sem börnin verða fyrir smá lífsreynslu sem víkur frá handritinu sem foreldrarnir hafa samið við eldhúsborðið heima er tóm vitleysa.
Hvernig eiga þau að verða fullorðin án reynslu? Til hvers að vernda þau svo vel fyrir lífinu að þau geta ekki lifað því þegar þar að kemur?
Tek það fram að ég er utan trúfélaga og styð aðskilnað ríkis og kirkju.