Margt getur breyst á stuttum tíma

Eftir fjögurra ára langtímaatvinnuleysi kann ég ekki að eyða peningum. Jafnvel þó ég hafi veskið fullt af seðlum.  Þrátt fyrir bráðum tveggja ára starf hjá Þjóðskjalasafni Íslands þá finn ég ekki enn fyrir svo mikilli öryggistilfinningu að ég galopni veskið og fari að dreifa seðlum í allar áttir.

Atvinnuleysið skemmdi mig að vissu leyti.  En bætti að öðru leyti.  Ég fæ ekki greiðslukortið aftur sem bankinn hrifsaði af mér í kjölfar hrunsins. Og þurfti nýlega að gráta út fyrirfram greitt greiðslukort í þremur tilraunum frá bankanum mínum.

Sem er gott því að ég kunni ekkert með peninga að fara fyrir hrun.  Og kann enn síður að fara með þá núna að því leyti að ég þori ekki að eyða neinu. Atvinnuleysið bíður sífellt við næsta horn.  Ég velti hverri krónu fyrir mér.

Sem er ágætt því ég mun aldrei aftur líta á ráðningu sem æviráðningu. Munurinn á milli reynslutíma og fastráðningar eru tveir mánuðir í uppsagnarfresti. Það er allt og sumt.  Enginn er öruggur með neitt.  Hollt að læra það sem fyrst.  Margt getur breyst á stuttum tíma.

Færðu inn athugasemd