Færri ræstingarkonur, fleiri aðstoðarmenn ráðherra.

http://www.ruv.is/frett/spara-30-milljonir-med-utbodi-raestinga

Að segja upp ræstingarfólki og ráða annað, færra og innflutt í staðinn er eins aumt og það getur verið. Bara til þess að kasta krónunni og spara aurinn. Þetta er eins og að sparka í liggjandi mann. Algjörlega óþarft, illkvittið og gegn konum.

Nú sitja sautján konur heima og þiggja atvinnuleysisbætur meðan sex pólskir innflytjendur á strípuðum lágmarkslaunum reyna að sinna þeirra störfum á dagvinnutíma með svipu tveggja verkstjóra á bakinu.
Árangurinn verður aldrei sá sami. Horn herbergja munu gleymast og aðeins verður hrært í drullunni í stað þess að skúra hana af gólfunum. Allt gert með hraði en óvandað. Bara nóg svo að það líti út eins og sé verið að þrifa.

Sú þróun að hrifsa hreingerningar fyrirtækja og stofnana úr höndum hörkuduglegra kvenna og námsmanna sem voru að reyna framfleyta sér og sínum á kvöldin getur ekki hafa verið smíðuð af neinum nema miðaldra karlmönnum í jökkum og með bindi og reiknistokk. Bókhaldsmenntuðum kerfisköllum sem geta ekki einu sinni skeint sig án aðstoðar, hvað þá þrifið húsnæði.

Ég man hve þessi breyting var umdeild í fyrirtæki einu þar sem ég starfaði einu sinni á gólfinu. Því það stóð einhvers staðar í gömlum samningum að skúringar ættu að eiga sér stað að vinnudegi loknum, ekki á meðan allt væri á fullu. Einfalt öryggisatriði með kannski hættulegar vélar í gangi. En vinnuveitendur hummuðu það fram af sér og sáu bara sparnaðinn í að færa þrifnaðinn yfir á dagvinnutíma og helst með innflytjanda á strípuðum taxta í stað Íslendings.

Þrælahald var aflagt á Íslandi tólfhundruð og eitthvað. Eða svo er sagt. Það viðgengst samt enn í gegnum skúringafyrirtæki sem flytja inn fátækt fólk frá Póllandi til að þræla á lægstu töxtum við hreingerningar í fyrirtækjum og stofnunum landsins. Þar eiga þau að afkasta á ofurhraða vinnu mun fleiri handa og jafnframt færa góðan, feitan hagnað í vasa þrælahaldara sinna. Nærtækt dæmi er Borgarspítalinn og fyrirtæki í Kópavogi sem hefur ítrekað verið í fréttum.

Ég varð persónulega vitni að vinnubrögðum starfsmanns þess á Borgarspítalanum. Rétt rennt yfir gólfið í stofunni með skítugri moppu og hornunum sleppt. Téð fyrirtæki virðist ekki kenna starfsfólki sínu hvernig á að þrífa á heilbrigðisstofnunum. Senda þau bara óþjálfuð út af örkinni til að afla eigendunum meiri peninga í kassann.

Það verður að snúa af þessari þróun. Skúringar eru ekki svið sem á að spara til þess að greiða fleiri fávitum fyrir að ráðleggja aðalfávitanum heilt hvernig stjórna skal landinu. Eða misvitrum milliliðum sem stunda nútíma þrælahald því þau nenna ekki sjálf að vinna.

Færðu inn athugasemd