Félagsfælnin

Þrátt fyrir að ganga bara bærilega í flestu sem ég tek mér fyrir hendur þessa dagana, þá ræð ég ekki alveg við blessaða félagsfælnina. Eftir að hafa legið í dvala lengi vel þá lætur hún aftur á sér kræla upp á síðkastið.

Stökk út úr strætó um daginn því ég þurfti að standa og hlusta á danskt fuglabjarg einhverra stelpna þaðan. Meikaði það ekki. Tók næsta í staðinn. Bekkjarsystir úr grunnskóla heilsaði upp á mig þegar við vorum í sitthvorri röðinni í Krónunni. Ég fór í kerfi. Vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við þessum aðstæðum sem ég réð ekki við. Hraðaði mér út á undan henni til að lenda ekki í spjalli um allt og ekkert.

Sat næst aftast í strætó og hópur af Verzlingum umkringdu mig. Sá fyrir framan mig horfði í sífellu yfir mig á félaga sína á aftasta bekknum. Eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki. Fólk á að sitja beint og horfa fram í strætó. Var við það að fara fremja morð þegar helvítis, vel greiddi Verzlingurinn hætti þessu þegar hluti vina hans fóru úr vagninum.

Og ég þarf að mæta í fermingarveislu á morgun. Jesús eini! Það sem er lagt á einn mann!

Færðu inn athugasemd