Germanwings

Ég var ekki beint upplagður í Berlínarför í næsta mánuði eftir að fyrstu fréttir af Germanwingsslysinu tóku að berast. Hef ekki stigið upp í flugvél í sjö ár og var ekki alveg sama þrátt fyrir að hafa aldrei beint verið flughræddur. Og vélin sömu tegundar og ég mun fljúga með, nema bara mun eldri.

Svo hefur þunglyndi aðstoðarflugmannsins komið í ljós og hvernig hann stýrði vélinni á fjallið. Greyið fólkið. Hvers átti það að gjalda! Og hurðin sem átti að verjast hryðjuverkum varð til þess að flugstjórinn gat ekki komið í veg fyrir harmleikinn. Ömurlegt!

Spurning hvort að nokkurn tíma sé alveg hægt að koma í veg fyrir svona atvik. Jafnvel þó aðrir úr áhöfn séu sendir inn á meðan annar hvor flugmaðurinn bregður sér frá. Erfitt að sjá á fólki sem gælir við að kála sér. Og hvað hefði flugþjónn eða flugfreyja getað gert? Yfirbugað gaurinn?

Nei, þetta er falskt öryggi sem tryggir ekki neitt. En það eru líka flugferðir upp að vissu marki. Við fullvissum okkur sjálf með gömlu, góðu möntrunni um að mun meiri líkur séu á að týna lífi í bíl en flugvél. Annars myndum við sennilega ekki þora um borð í þessar síldartunnur loftsins.

Færðu inn athugasemd