Dómur er fallinn. Ég hvílist lítið sem ekkert á nóttunni sökum kæfisvefns. Kemur mér ekki beint á óvart. Hef í lengri tíma rétt haft orku í vinnuna og búið. Sem gengur eiginlega ekki ef maður ætlar að sprikla eitthvað fyrir eða eftir vinnu. Auk þess er kæfisvefn bara stórhættulegur til lengdar. Getur til dæmis keyrt upp sykursýki og aukið álag á hjartað.
Fékk eitthvert tæki heim til að mæla svefninn. Plús að þurfa ekki lengur að sofa upp á spítala. Og núna í kjölfar niðurstöðunnar fæ ég annað tæki heim sem á að hjálpa mér að anda rétt meðan ég sef. Einhvers konar ryksugu sem kemur í veg fyrir öndunarstopp og bætir súrefnismettunina. Tæki sem ég hefði átt fyrir löngu að vera búinn að fá.
Hef verið syfjaður og þreyttur í mörg ár. Hélt að það væri bara eðlilegur fylgifiskur þess að vera of þungur. Nú sé ég fram á bjartari tíð með blóm í haga og öndunargrímu yfir smettið meðan ég sef. Sem er lítið gjald fyrir góðan nætursvefn og aukna orku yfir daginn. Grennist víst lítið ósofinn og asnalegur.