Á milli stríða og bjóra í Berlín láðist mér að renna smá tónlist í gegnum farsímann minn með nettengingu hótelsins. Eina sem mér datt í hug á hlaupum voru Elvis Presley og Johnny Cash sem báðir sinntu herþjónustu í Þýskalandi á sínum tíma.
Elvis milli 1958 og 1960 í Friedberg í þriðju skriðdrekasveitinni. Cash þjónaði sem „radio operator“ við hlerun í Landsberg í Bæjaralandi í fjögur ár (1950 – 1954) og sagan segir að hann hafi verið sá fyrsti vestan meginn til að heyra af dauða Stalíns þegar hann var að hlera samskipti frá Sovétríkjunum eina vaktina.
Mér finnst merkilegt að tveir svona stórir bandarískir listamenn þjónuðu báðir í Þýskalandi og urðu án efa fyrir ýmsum áhrifum frá veru sinni þar. Báðir fátækir Suðurríkjamenn að sinna sinni herskyldu. Elvis þó kominn í góða stöðu en taldi sig ekki eiga afturkvæmt á tónlistarsviðið og taldi ferli sínum lokið. Johnny blautur á bak við eyrum.
Báðir sneru þeir aftur þroskaðri menn með konu upp á arminn. Elvis með Priscillu og Johnny með Vivian sem hann hafði kynnst í grunnþjálfum fjórum árum fyrr í Texas. Og héldu svo grimmt framhjá þeim næstu árin eins og sönnum stjörnum sæmir. Freistingar við hvert fótmál.
Bítlarnir voru í Hamborg áður en þeir urðu heimsfrægir og þróuðu sinn stíl í sveittum klúbbum hafnarborgarinnar. Þýskaland virðist bæta flesta enskumælandi tónlistarmenn.
En hvað um það. Varð hugsað til Cash og Presley eftir túrinn um Þjóðskjalasafn Þýskalands á föstudeginum sem hafði áður þjónað ýmsum hlutverkum; þ.á.m. sem herstöð fyrir bandaríska hermenn eftir seinna stríð. Og urðu þar til kynni og jafnvel hjónabönd milli bandarískra hermanna og þýskra kvenna. Rétt eins og á Íslandi.
Berlín er borg mér að skapi. Afslöppuð, flöt og ekki með neitt vesen. Allt upp á tíu og stundvísi dyggð. Falleg og hrein borg með mikla sögu. Þangað mun ég koma aftur. Þjóðverjar eru gott fólk sem gott er heim að sækja. Einstaklega kurteist. Tala nú ekki um ef maður reynir að tala við þau á sinni menntaskólaþýsku.