stundin.is/frett/eina-lesbian-i-baenum-eg-tharf-ekki-ad-fela-mig/
Í kjölfar fáranlegrar baráttu Gylfa Ægis og innhringjanna í símatíma Útvarp Sögu gegn tillögu í Hafnarfirði um að fræða grunnskólanemendur betur um samkynhneigð kom demantur út úr skápnum á Höfn á Hornarfirði með hjálp vinkvenna sinna. Virkilega falleg útganga úr skápnum.
Hef reynt að hlusta á svartagallsrausið á Útvarpi Sögu en gefist jafnharðan upp. Þetta lið er ekki í lagi! Það er statt einhvers staðar aftur á myrkum miðöldum og algjörlega úr takti við samtíma sinn að berjast við vindmyllur.
Í raun sorglegt að sjá þetta lið koma sér út úr íslensku samfélagi með taktleysi sínu. Það á illa afturkvæmt með slíka fordóma á bakinu gagnvart samborgurum sínum. Gleðigangan er fyrir löngu komin til að vera. Sættið ykkur við það og gleðjist með okkur hinum.
Internetið er meira en tuttugu ára gamalt þar sem allt blasir við forvitnum börnum hafi þau metnað til að leita. Og þetta lið í kringum Útvarp Sögu rembist eins og rjúpan við staurinn til að koma í veg fyrir sakleysislega fræðslu um samkynhneigð í grunnskólum Hafnarfjarðar svo blessuð börnin leggi skólafélaga sem eiga tvær mömmur eða tvo pabba síður í einelti. Svo börn sem hrífast af aðila af sama kyni finnist þau ekki vera öðruvísi eða síðri en bekkjarfélagar sínir. Að slíkt sé eðlilegt.
Hvað er eiginlega að þessu liði? Þykjast vera vernda börnin en eru í raun að reyna að viðhalda skakkri og þröngri mynd af samfélagi sem gekk í aldanna skaut fyrir meira en tveimur áratugum síðar.
Sorry Gylfi Ægis og Útvarp Saga. 21. öldin er löngu hafin og þið sitjið enn langt eftir á þeirri 20. með þvermóðskusvip og samanbitnar varir yfir allri þróuninni sem hefur orðið. Auðvitað er erfitt fyrir suma að sætta sig við að samkynhneigðir séu komnir með sömu réttindi og við hin gagnkynhneigðu.
Erfitt að sætta sig við að við fæðumst ekki öll með sama prógrammið innprentað í heilabörkinn og það sé ekki hægt að „afhomma“ fólk. Og sennilega erfiðast að sætta sig við að ástin spyrji hvorki um stétt, stöðu né kyn. Að henni verði ekki stjórnað með boðum, bönnum eða þröngsýni. Að þetta snúist um tilfinningar en ekki bara kynlíf. Að hrífast af aðila af sama kyni sé bara gott, blessað og fallegt.