Við Íslendingar hljótum að vera leiðinlegustu nágrannar í heimi. Getum varla búið saman í fjölbýli án þess að skipta okkur af næsta manni. Vera með leiðindi og frekju. Bara af því að við höldum að við megum það. Og oftast af fólki sem er hvorki með ófrið um nætur eða leiðindi á móti.
Nei, hér er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Á öryrkja og innigæludýrin þeirra sem bögga engan. Jú, nema þessa tvo nöldurseggi í blokkinni sem vita af þeim og geta ekki sofið um nætur með þá vitneskju í höfðinu. Kvarta þess vegna og kveina þar til dýraeigendunum er gert að ganga frá loðnum félögum sínum ellegar missa íbúðirnar sínar.
Ég get vel skilið að sumt fólk kunni ekki að meta gæludýr. Eflaust vegna þess að þau ólust ekki upp með dýrum. Kannski voru foreldrar þeirra þverir, skverir og hötuðu dýr. Mér þykir leitt að þau hafi misst af upplifuninni. Öll börn ættu að fá að knúsa hund, kött eða hvað sem er með fleira en tvo fætur.
Sumir röflarnir segjast vera með ofnæmi og þess vegna þurfi að murka lífið úr gæludýri nágrannans. Þetta er sama liðið og kvartar yfir grilllykt af svölum hinna íbúanna. Sömu tautararnir og mega ekki heyra í börnum án þess að reka upp ramakvein. Öskra svo og stappa niður fótum þegar þau fá ekki sínu framgengt. Svona lið á að búa eitt og yfirgefið upp á fjöllum fjarri mannabyggð. Alls ekki í fjölbýli!