Forljótum DV snepli var troðið í gegnum bréfalúguna mína rétt fyrir miðnætti í vikunni. Rétt um það leyti og ég var að festa svefn. Forsætisráðherragerpið á forsíðunni með allskyns fáranleik og fullyrðingar. Nú þarf enginn að fara í grafgötur með að DV er Framsóknarblaðið. Tíminn sálugi endurborinn. Ég mun aldrei gerast áskrifandi.
Vigdís Hauksdóttir enn og aftur ljúgandi í fjölmiðlum og kennandi fyrri stjórn um hvernig er komið fyrir túlkunarsjóði heyrnarlausra. Leit út eins og kátur köttur sem hefur komist í rjóma þegar hún smjattaði lygaþvæluna sína fyrir framan myndavél og hljóðnema RÚV.
Mikið er ég orðinn leiður á Framsóknarfrekjunni. Hvenær munum við losna við þessa óværu? Hvenær getum við aftur um frjáls höfuð strokið? Ég er svo hræddur um að þessir popúlistar muni ná aftur vopnum sínum eftir tvö ár og ná svipuðum árangri og síðast út á útblásin kosningarloforð. Fólk er nefnilega fífl!
Og já! Ég er með ofnæmi fyrir Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum! Mér finnst eins og fjósafasistarnir og íhaldið hafi rænt stjórnartaumunum í síðustu kosningum með loforðum um gull og græna skóga. Allt til þess gert svo þessir helmingaskiptaflokkar gætu sölsað meira undir sig og sína.
Löngu timabært að nýir aðilar fái að reyna sig við stjórnun landsins. Til dæmis Píratar og önnur ný framboð sem munu spretta fram fyrir næstu kosningar. Hvar stendur steypt í stein að fjórflokkurinn (fimmflokkurinn) eigi einkarétt á að stjórna landinu?