Skil ekki af hverju erlendir ferðamenn slæðast hingað upp á Klakann. Hér er ekkert að sjá nema leiðindi. Að minnsta kosti í höfuðborginni. Lundabúðir hverri annarri líkar, ljót hús og vond veður. Verðlagning upp úr öllu valdi og léleg þjónusta.
Skil vel að túristarnir vilji ganga örna sinna í íslenskum húsagörðum og þakka þannig fyrir ömurlega upplifun á þessum ofmetna klaka sem þeim var seldur sem ósnortin náttúruparadís.
Hvað er svona erfitt við að fjölga salernum? Og rukka tvær Evrur inn eins og gert er í Berlín. Ekki sá ég eftir þeim fjármunum fyrir flott og hreint salerni við minnismerkið um Helförina. Starfsmaður á vakt sem sér um að halda öllu í toppstandi. Algjör snilld. Rétt eins og á Strikinu í Kaupmannahöfn og eflaust flestum siðmenntuðum stöðum í Evrópu.
Skortur á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn er lýsandi fyrir hve gráðug við erum. Ætlumst bara til að fá þá hingað án nokkurs tilkostnaðar. Græða á þeim og senda þá svo heim í bullandi spreng. Og ef þau þurfa nauðsynlega að létta á sér er þeim bara bent á einkagarða hringinn um landið í skjóli trjáa.