Frjálslyndisfasistinn

Ég hata leyndarhyggju. Þessa þörf fólks til að fela óþægilegar staðreyndir. Eitthvað sem virðist loða undarlega mikið við íhaldið á Íslandi eins og lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur sannað svo um munar. Í þeim flokki þykir ótækt að birta upplýsingar um kynferðisbrot og tekjur fólks. Þar virðist teljast til mannréttinda að nauðga og svíkja undan skatti og komast upp með það.

Mér finnst allt of mikið um boð, bönn og varnagla á Íslandi. Allt of mikil
forræðishyggja og „þetta er bannað“ frá bæði yfirvöldum og einhverju fólki út í bæ. Þöggun, frekja og kúgun minnihlutans yfir meirihlutanum.

Strax í menntaskóla var ég kallaður frjálslyndisfasisti af vini mínum. Ég er víst allt of frjálslyndur fyrir okkar oft á tíðum kommúníska og fasíska samfélag. Veit ekki hvort það sé vegna pelans af bandaríska blóðinu sem rennur um æðar mér eða bara stök tilviljun. Til að mynda finnst mér að frelsi fjölmiðla eigi að vera algjört. Eflaust er það einfaldlega hið lokaða og bælda íslenska samfélag sem æsir upp í mér frjálslyndispúkann.

Hér gæti þrifist paradís á jörðu með opnasta samfélagi heimsins þar sem ferðamenn, fræðimenn og fyrirtæki myndu flykkjast að til frambúðar en gera nú aðeins tímabundið vegna gjaldeyrishafta og lágs gengis.

Í stað þess stjórna hér umræðunni miðaldra karlar illa haldnir af rörsýn. Þeir hata jafnt innflytjendur, múslima og frelsi kvenna. Eða á það sér bara stað í innhringitíma Útvarps Sögu þar sem Kölski sjálfur ælir út úr sér viðbjóðnum í gegnum mismunandi raddir veikra einstaklinga með kolsvört hjörtu full af hatri og aðgang að síma?

Við höfum sýnt og sannað að við getum verið víðsýn og opin í hugsun. Nægir að nefna réttindabaráttu samkynhneigðra. Hinsegin daga sem klárast í dag. Gleðigönguna sem fór fram í gær. Á þrjátíu árum tókst okkur að breyta hómófóbísku samfélagi í fyrirmynd annarra ríkja. Þeir örfáu sem enn fetta fingur út í árlega göngu gleði og ástar búa einhvers staðar suður með sjó og virðast ekki komast út úr skápnum með gítarinn sinn.

Enn er ekki öll von úti. Við getum enn orðið paradís heimsins fyrir mannréttindi, frjálslyndi og framþróun. Þurfum bara að losa okkur við fjórflokkinn og allt það úldna kerfi. Byggja landið upp á nýtt með nýju stjórnarskránni sem ekki einu sinni Björt Framtíð vildi samþykkja. Sem skýrir að hluta fylgistap þess pilsfaldaflokks.

Það er ekki nema von að Píratar njóta svona mikils fylgis í skoðanakönnunum. Ástæðan eru ekki bara málefnin sem hafa verið svikin eftir kosningar, heldur óánægja fólks með að ekkert hefur breyst hjá fjórflokknum (fimmflokknum) eftir hrunið. Við meikum ekki lengur stjórnmálastétt sem gerir ekkert nema að skara eld að eigin köku og eigenda sinna í sjávarútvegi og viðskiptum en hunsar svo þarfir öryrkja, eldri borgara og sjúklinga.

Næstu kosningar munu verða sögulegar. Þá loksins verður hreinsað út úr AlÞingi. – Ef ekki þá er úti um íslenskt samfélag og við getum sjálfum okkur um kennt.

Færðu inn athugasemd