Félagsfælnin

Hef sennilega barist við þennan bölvald frá því ég skreið upp úr æsku og varð unglingur. Var oft mjög langt leiddur í atvinnuleysinu. Gat hvergi farið innan um fólk án þess að svitna og kyngja eins og vitleysingur. Forðaðist því fjölmenni og mannamót. Allar krefjandi aðstæður.

Þrátt fyrir nokkuð gott tímabil síðustu misseri þá forðast ég enn fjölmenni ef ég get. Lét mig þó hafa það að mæta í jólahlaðborð um daginn. Lifði það af en passaði mig á að fara nógu snemma heim áður en kvíðinn og innilokunartilfinningin sóttu að.

Að fara á fætur og mæta til vinnu getur jafnvel orðið barátta. Verð helst að mæta á undan öllum öðrum til að ná áttum. Að mæta seinastur er erfiði fyrir mig. Meika alls ekki þetta fólk í strætó rétt fyrir klukkan níu.

Félagsfælnin sótti hart að mér fyrr í mánuðinum.  Langaði mest til að loka mig af og rjúfa öll samskipti við umheiminn. Læsa að mér, draga fyrir og slökkva á símanum.

Náði loks að rífa mig upp af rassgatinu og fara meðal fólks kortéri fyrir jól. Þoli ekki þegar þessir svörtu hundar ná að glefsa í mig og draga mig niður í myrkrið. Næst skal ég hlaupa þá af mér.

Færðu inn athugasemd