Klerkur frá myrkustu miðöldum vill takmarka rétt kvenna yfir eigin líkama og skikka þær til að ganga með og fæða óvelkomin börn. Guðfræðingur, ættfræðingur og mjög virkur innhringjandi á Útvarp Sögu tekur hressilega undir. Tveir forpokaðir, miðaldra karlar að hlutast til um líkama og ákvörðunarrétt kvenna. Eins og þeim komi málið eitthvað við.
Vantar bara innlegg frá kvenhatandi strætóbílstjóranum sem heldur því fram að einstæðar mæður eyði meðlaginu í djamm og leit að nýjum karli til að verma bælið sitt. Láti sínar eigingjörnu þarfir ganga fram fyrir velferð barnanna sinna. Noti svo fóstureyðingar eins og neyðargetnaðarvörn.
Stundum lekur svo mikið kvenhatur úr viðtækinu í símatímum Útvarps Sögu að mér verður illt.
Stjórnendurnir hleypa þessum vitleysingjum í loftið og þvertaka svo fyrir að vera með númerabirti til að geta stjórnað hverjir komast inn. Sama sveitta fólkið nær inn á hverjum degi og flytur sömu sveittu ræðurnar aftur og aftur eins og rispaðar hljómplötur.
Það er reyndar enginn að neyða mig til að hlusta. Geri það stundum í vinnunni þegar ég er orðinn leiður á skvaldrinu og síbyljunni á hinum stöðvunum. Svo hlusta ég kannski ekki svo vikum skiptir. En um leið og ég opna aftur fyrir þessa djöflarás þá dynur á mér sami sveitti söngurinn frá sama þreytta fólkinu með svörtu hjörtun sín.