Sá myndband með ræðu frá Bernie Sanders á facebook þar sem hann áréttaði að eina sem þyrfti til að breyta heiminum væri hugrekki kjósenda til breytinga og vilji þeirra til að velja aðra en sama sveitta fólkið til áhrifa. Meirihluti kjósenda ræður eins og sjálfskipaði konungurinn á Bessastöðum þreytist ekki á að nefna. Hann mun komast illilega að því í lok júní ef við sem teljum kominn tíma á kynslóðaskipti andskotumst til að fjölmenna á kjörstað.
Þó Bernie blessaður vinni ekki forval Demókrata, þá er ekkert sem getur stöðvað hann í að bjóða sig fram sem óháður. Verst að það getur klofið fylgið og gagnast helvítinu Trump og komið honum endanlega í Hvíta húsið. En er hann eitthvað verri en Clinton þegar upp er staðið? Skiptir einhverju máli hvor Wall Street klappstýran vermir stól forseta Bandaríkja Norður-Ameríku?
Væntingar heimsins vegna kjörs Obama á sínum tíma voru miklar en það var ekki eins og hann breytti heiminum þrátt fyrir sjarma sinn og víðsýni. Kerfið er bara stærra en svo að stakur einstaklingur geti haft mikil áhrif til batnaðar. Embættismannakerfið stjórnar öllu óhað úrslitum kosninga.
Enn skjóta Kanar hvorn annan á götuhornum fyrir minnstu sakir með aðra stjórnarskrárs-viðbótina frá 1791 upp á vasann, sem veitir þeim rétt til að ganga með vopn til að verja sig. Enn eru reknar fangabúðir fyrir meinta hryðjuverkamenn á syðsta odda Kúbu. Enn komast löggur upp með að skjóta fólk með dekkri húð til dauða og spyrja þau svo spurninga. Enn eru dauðarefsingar við lýði í 31 ríkjum Bandaríkjanna af alls 50.
En svona er Ameríka. Snúum okkur að skerinu í miðju Atlantshafi. Fyrir þremur árum kaus helmingur þjóðarinnar yfir sig ríkisstjórn með eigur sínar í aflandsfélögum í gegnum vafasama lögmannsstofu í Panama. Forsætisráðherrafíflið með eða án doktorsgráðu hrökklaðist frá völdum og einhver sveitavargur tók við því fjármálaráðherrann gat það ekki með sína erlendu reikninga í skattaskjólum og skráningu sína á framhjáhaldssíðu Ashley Madison sem Icehot1.
Þetta lið neitar að skila lyklunum þrátt fyrir fjölmennustu mótmæli sögunnar og ætlar að hanga á völdunum eins lengi og þau geta til að geta selt bankana í hendur „réttra“ aðila fyrir spottprís. Einnig til að geta rutt í gegn 10 ára búvörusamningi sem þjónar engum nema Framsóknarflokknum.
Ekkert skrítið að máltæki eins og „þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur“ og „heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki“ séu vinsæl á Íslandi. Við virðumst lifa eftir boðskap þeirra.