Risaeðlur Bessastaða

Í fullkomnara samfélagi stæði baráttan um Bessastaði án aðkomu Ólafs Ragnars eða Davíðs Oddssonar, en sögur segja að sá síðarnefndi muni tilkynna um framboð sitt fyrir hádegi í dag hjá Páli Magnússyni á Bylgjunni. Vonandi er sú flökkusaga djók, lygi eða bara blautur draumur Hannesar Hólmsteins.

Hvers vegna getur gamla Ísland ekki látið af völdum og farið á eftirlaun. Hvaða endemis frekja er þetta eiginlega?  Verður að tryggja að núverandi stjórn geti sölsað undir sig fleiri ríkiseignir á spottprísi áður en hún neyðist til að láta af völdum?  Verður varðhundur og klappstýra Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að sitja á Bessastöðum á meðan þeir glæpir verða framdir gegn Íslendingum?

Skynsöm þjóð myndi hunsa gamlar risaeðlur og kjósa milli allra hinna frambjóðendanna. En ekki Íslendingar.  Við leitum þangað þar sem við erum kvöldust og pössum okkur á að heiðra skálkinn svo að hann skaði okkur ekki.

Þrælslund okkar og ótti við breytingar munu sjá til þess að gamall durgur mun sitja á Bessastöðum næstu fjögur árin.  Hvort það verður Ólafur eða Davíð skiptir minna máli. Þeir eru tvær hliðar sama peningsins.  Frambjóðendur spillta Íslands sem geymir eigur sínar í skattaskjólum og eftirlætur okkur hinum að greiða fyrir samneysluna.

Færðu inn athugasemd