Maður á mínum háa aldri hangir ekki mikið niður í miðbæ um helgar nema þegar nauðsyn krefur. Varði þar kvöldstund á föstudaginn og náði að drösla mér þaðan með gula vagninum fyrir miðnætti heim í Kópavoginn. Var ekki orðinn nógu drukkinn til að tíma leigubíl.
Tók óvænt þátt í popquiz með félögum úr vinnunni. Sean Connery lék Macbeth í fyrstu kvikmyndun á verkinu árið 1961, svo við svöruðum 18. spurningunni að minnsta kosti rétt og áttum von á einum bjór í verðlaun en skildum víst svarblaðið eftir þegar við færðum okkur um set á næsta bar. Skiptir ekki máli. Keppnin var góð. Svona eiga happy-hour að vera.
Í gegnum kvöldið milli skemmtilegra samtala og sagna samstarfsfélaga, fylgdist ég með fólkinu sem slæddist inn um dyr baranna tveggja. Mjög svipuðu fólki og í gamla daga, jafnvel börnum þeirra, bara betur til fara og minna drukkið.