Eftir tvær vikur brestur á mesta nauðgunarhelgi ársins í Vestmannaeyjum. Sjálf Þjóðhátíðin í Eyjum með öllum sínum dásemdum en jafnframt árshátíð nauðgara á Íslandi því þar eru árásir á konur þaggaðar niður fram yfir helgi og dregið úr alvarleika þeirra. Allt svo skuggi falli ekki á sjálfa hátíðina og fólk hætti ekki við að mæta á laugardegi og sunnudegi.
Er sem áður var þegar ég dröslaðist í Dalinn með vinum mínum og fjölskyldu. Maður heyrði varla af nauðgun eða líkamsáras. Slíkt þótti sæta tíðindum og var tekið alvarlega. Nú snýst hinsvegar allt um peninga eftir að farið var að sigla úr Landeyjarhöfn. Skítt með öryggi og réttlæti þeirra sem sækja hátíðina heim.
Kvenfyrirlitningin lekur af dagsskrá og öryggisgæslu hátíðarinnar. Aðallega karlkyns flytjendur og hjálparsveitarlærlingar af fastalandinu. Skil ekkert í stelpum að mæta þangað til þess eins að verða að mögulegum fórnarlömbum sem sennilega fá aldrei réttlæti fyrir þá glæpi sem þær eru beittar í dalnum góða.
Lögreglustjórinn Páley Borgþórsdóttir sem áður barðist duglega fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis er hún var lögmaður gaf út þöggunartilskipun í fyrra til allra aðila sem kynnu að koma að nauðgunarmálum á Þjóðhátíð undir yfirskyni rannsóknarhagsmuna og heilsu fórnarlamba. Lyktaði eins og bein tilskipun frá Þjóðhátíðarnefnd. Þarf eitthvað að ræða það frekar. Svona ganga kaupin augljóslega fyrir sig á eyrinni í Vestmannaeyjum. Þessi skipun verður endurtekin innan skamms. Sannið þið til.
Verst þykir mér að Eyjamenn neita að þiggja hjálp utankomandi aðila við að spyrna gegn nauðgunarmenningu hátíðarinnar. Sem er skrítið því augljóst er að þetta lið ræður ekkert við ástandið. Stígamót voru rekin frá eyjunni með látum fyrir að halda því fram með réttu að hátíðin sjálf væri vandamálið. Öryggisgæslan og eftirfylgnin er ekki næg. Aumingjar fá að vaða uppi óáreittir með skaufana sína út um buxnaklaufarnar og nauðga svefndrukknum stúlkum. Þykir það bara fylgja hátíð sem þessari og vera eðlilegt. Bara ekki í augum okkar hinna sem búum ekki í Eyjum.
Fáeinar öryggismyndavélar og Bleiki fíllinn duga engan veginn við að stemma stigu gegn nauðgunum á Þjóðhátíð. Slíkar æfingar eru bara fyrir fjölmiðla. Hérna þarf mun duglegri gæslu og stóraukinn vilja til að berja niður vesalinga sem ráðast á konur. Við þurfum öll að hafa augum hjá okkur. Svona menn eru skíturinn undir skónum okkar og eiga skilið að vera barðir duglega hvar sem til þeirra næst.