Frelsisflokkurinn

Svo er það hinn helmingaskiptaflokkurinn.  Sveipar sig skikkju frelsis og einkareksturs. Samt starfar þetta lið flest hjá hinu opinbera.  Aðhyllist ríkisstyrkta einkavæðingu þar sem flokkshestar fá úthlutað bitlingum sem við hin greiðum fyrir með hærri sköttum.

Með reglulegu millibili ríður einn þessara frelsiselskanda fram með áfengisfrumvarp sem veitir leyfi til sölu veiga utan ríkisrekinna vínbúða.  Frumvarp sem dagar vanalega uppi í lok kjörtímabils svo hægt sé að endurnýta það á næsta kjörtímabili.

Aldrei þorir þetta stuttbuxnalið að spyrða afnám áfengisskatta við frumvörp sín. Enda virðist Alþingi frekar vera í stuði fyrir að setja hömlur, bönn og skatta heldur en að liðka fyrir og auðvelda líf samborgara sinna.

Alla flokka á Íslandi virðist kitla í fingurgóma að keyra fram blauta drauma sína um stjórn á lýðnum.  Segja okkur hvernig við eigum að haga lífi okkar.  Hafa vit fyrir okkur því við erum svo sauðheimsk.

Ég kýs að treysta fólki til að stýra sínu lífi sjálft.  Boð og bönn eru eitur í mínum beinum og aðeins sett til að fróa þeim sem varpa þeim yfir okkur hin.  Þau gera svo sjálf það sem þeim andskotans sýnist meðan við hin neyðumst til að hlýða í blindni.

Færðu inn athugasemd