Veröldin er rispuð plata undir hvassri nál. Árleg ágreiningsefni endurtaka sig og engin niðurstaða fæst. Við höldum bara áfram að rífast frá þeim punkti sem frá var horfið. Þannig er umræðan um Þjóðhátíð í Eyjum og þá staðreynd að þar blómstrar enn nauðgunarmenningin þrátt fyrir alla gæsluna, myndavélarnar og vilja yfirvalda að sporna gegn þessum glæpum.
Ef til vill vegna þess að þar má engu breyta! Ekki svara fjölmiðlum um tilkynnt kynferðisbrot, heldur bara hve mikið af söluskömmtum af ólöglegum fíkniefnum hundarnir náðu að þefa uppi þá og þá nóttina og hve vel allir skemmtu sér í Herjólfsdal undir dynjandi tónlist flytjandanna á brekkusviðinu.
Merkilegust finnst mér umræðan á netinu. Að láta fjölmiðlum í té upplýsingar um fjölda kynferðisbrota geti skaðað rannsóknarhagsmuni og komið sakleysingjum í vanda. Menn eru ranglega sakaðir um glæpi nær hverja helgi í Reykjavík án vandkvæða.
Vissulega hefur fræg saga sveimað lengi milli manna sem segir frá gaur sem var dreginn saklaus úr tjaldi sínu með látum af lögreglunni í Eyjum fyrir að sænga hjá stelpu á föstu sem vildi ekki láta nappa sig og hafði því kært strákinn fyrir nauðgun í geðshræringu sinni svo ekki kæmist upp um hana.
Varla er þessi einstaka frásögn ástæðan fyrir útilokun fjölmiðla yfir Verslunarmannahelgina. Eða er ástæðan sögurnar um starfskonur Stígamóta (þegar þær máttu náðarsamlegast mæta í dalinn) sem eiga að hafa dregið sauðdrukkna og sveitta drengi í ástarbríma af stynjandi stelpum og sakað þá um nauðgun að ósekju?
Druslugangan fer fram næsta laugardag. Skilum skömminni þangað sem hún á heima. Hættum að þegja kynferðisofbeldi í hel. Vildi óska þess að Þjóðhátíð í Eyjum myndi dröslast inn í nútímann, taka Eistnaflug sér til fyrirmyndar, og krefjast þess af gestum sínum að vera ekki fávitar.
EKKI VERA FÁVITI!