Eina sem fjölmiðlar og almenningur krefst af lögreglunni í Vestmannaeyjum er að veita lágmarks upplýsingar um tölfræði glæpa sem hafa verið tilkynntir eftir sérhverja nótt Þjóðhátíðarhelgarinnar. Ekki nákvæmar lýsingar eða nöfn mögulegra fórnarlamba eða gerenda. Eða aðstæður glæpsins.
En nei, yfirvöld þar þráast við og bera fyrir sig rannsóknarhagsmuni og velferð mögulegra fórnarlamba. Allt í veikri tilraun sinni til að stjórna umræðunni svo laugardags- og sunnudagsgestir hætta ekki við að koma í dalinn vegna frétta af nauðgurum sem ganga lausir í dalnum. Þrátt fyrir að ríkislögreglustjóri segi að best sé að öll lögregluumdæmin fylgi þeirri reglu að svara fyrirspurnum fjölmiðla eftir bestu getu og eins fljótt og þau geta.
Svona viðhorf og viðbrögð fær okkur upp á fastalandinu til að velta vöngum um hvernig þjónustu og hjálp möguleg fórnalömb fá í raun og veru hjá lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki í Eyjum. Eru þau hvött til að halda harmi sínum fyrir sig sjálf fram yfir Verslunarmannahelgi svo ekki sé kastað rýrð á Þjóðhátíð Vestmannaeyja? Eru þau töluð frá því að kæra þar til eftir helgi? Að slíkt sé ekki til neins fyrr en að helgin sé liðin!
Viðhorf, hroki og klaufaháttur lögreglustjóra, bæjarstjóra og formanns Þjóðhátiðarnefnar Vestmannaeyja er slíkur að þorri fjölmiðla og almennings snerist umsvifalaust gegn þeim. Þremenningarnir hefðu betur orðið sér úti um aðstoð almannatengils áður en þau opnuðu á sér þverrifuna.
Verst er að þetta þremenningaveldi og talsverður hluti af íbúum Vestmannaeyja virðist taka gagnrýni á hátíðina persónulega og telja hana sprottna frá illa innrættum aðilum upp á fastalandinu sem drekka latté og ganga með trefil um hálsinn.
Svo er alls ekki! Við elskum flest Þjóðhátíð í Eyjum. Sjálfur mætti ég þangað tíu sinnum á árunum 1992 – 2003 og skemmti mér ætíð konunglega. Og það án þess að nauðga nokkrum. Miði tryggir ekki að þú fáir það á Þjóðhátíð! Enda er nauðgun ekki svölun á kynferðilegri löngun, heldur snýst um að ræna völdum. Drottna yfir viðkomandi. Kvenhatur í sinni verstu mynd.
Björt Ólafsdóttir þingkona Bjartrar framtíðar spyr hvort forsvaranlegt sé að halda hátíð þegar gestir hennar séu ekki öruggir. Nauðgun á ekki að vera viðurkennd stærð sem gert er ráð fyrir þegar slegið er upp tjöldum í Herjólfsdal. Eistnaflug segir einfaldlega: ekki vera fáviti. Það er gott viðmið sem allir ættu að fara eftir. Hendum vandræðagemlingunum út dalnum um leið og þeir sýna sitt rétta eðli. Bíðum ekki eftir glæpnum.
Sjö auglýstir flytjendur á Þjóðhátíð hafa tekið málin í sín hendur og neita að koma fram nema lögregluyfirvöld í Eyjum láti af þöggunartilburðum sínum og sjái til þess að gestir dalsins njóti öryggis meðan þeir skemmta sér.
Mikið er ég stoltur af þessum strákum. Svona bregðast sannir karlmenn við. Taka ábyrgð og krefjast þess að gestir Herjólfsdals séu verndaðir fyrir rándýrum merkurinnar.