Túrisminn

Gerði heiðarlega tilraun til að gerast ferðamaður í eigin miðbæ í gær eftir vinnu. Þrammaði sem leið liggur niður Laugaveg, upp Frakkastíg að Hallgrímskirkju og loks niður Skólavörðustíg og Bankastræti til að skoða regnbogatröppurnar við MR.

Gekk frekar hægt.  Ekki þverfótað fyrir túristum með massívar myndavélar um hálsinn mælandi á erlendar tungur.  Alls staðar hönnunarbúðir, veitingastaðir og lundasölur.  Nóg að gera á flestum stöðum.  Gjaldeyrir að streyma inn í þjóðarbúið.

Hvíldi lúin bein (og aukakíló) á bekk á leiðinni og fór að velta fyrir mér hvað allir þessir erlendu gestir væru að gera hér í þessari frekar lágreistu og litlu borg.  Hér væri nú lítið um að vera og fátt að skoða.  Mundi svo eftir öllum trjánum í Danmörku og flatneskjunni. Skorti á yfirsýn og útsýni.

Í Reykjavík og nágrenni sést hinsvegar mikið í kring.  Fá háhýsi sem skyggja á og höfuðborgarsvæðið er hæðótt og fjölbreytt með hafið og fjöllin í nánasta umhverfi. Hægt að draga djúpt andann og fá hressandi hafgolu í lungun.  Og hér er alltaf eitthvað um að vera.

Megum hinsvegar hlúa mun betur að og byggja hratt upp ferðamannastaðina út á landi. Annars töpum við gestunum okkar og þau fara eitthvert annað þar sem þau þurfa ekki að vaða leðju og gera þarfir sínar út í mosagrónum móa.

Eins í borginni.  Heyrði á tal tveggja gangandi lögregluþjóna sem söknuðu upplýsingaskilta svo þeir þyrftu ekki alltaf að vera að svara einföldustu spurningum ferðamanna.  Sjálfur sakna ég fleiri almenningssalerna.

Annars erum við bara nokkuð góð í því að græða á túrismanum á daginn og grilla á kvöldin. Fer ekki annars að styttast í næsta hrun?

Færðu inn athugasemd