Strætóblús II

Þá halda áfram sögur mínar úr almenningsvögnum borgarinnar.  Hef ákveðið að gera þær að framhaldssögu.  Engin ferð er eins.  Fólk er stórmerkilegt og skrítið og sýnir oft óvart sitt rétta eðli innan um okkur hin í vagninum á leið til eða frá vinnu. Okkur hin sem sitjum vanalega öguð, þæg og friðsæl meðan við horfum fram á við alla leiðina á ákvörðunarstað án þess að gefa frá okkur hljóð.

Vissulega felst friðsæld okkar hinna mikið í því að 90% okkar eru með andlitin grafin niður í snjallsímana okkar.  Ég get það ekki sjálfur því mér verður mál að gubba eftir smá lestur á snertiskjáinn.  Eitthvert ferðaeinkenni sem ég virðist ekki geta losnað við.  Neyðist til að horfa út um gluggann og á hina farþegana.  Samt get ég lesið í lestum og flugvélum. Skrítið?

Bílstjórinn í gær á heimleiðinni frá Smáralind var virkilega geðillur en samt fagmaður. Við vorum á nýjum VDL vagni með öllum græjum.  Geðstirður notaði hátalakerfið og hastaði á krakkagerpi aftast sem höfðu sett fæturna upp í nýju sætin.  Reif svo upp hliðarrúðuna hjá sér þegar unglingspiltur án meðvitundar með heyrnartól í eyrunum gekk beint fyrir vagninn án þess að líta til hliðanna.  „Reyndu að vera vakandi drengur og líttu til hliðanna“ þrumaði sá gamli út um gluggann svo glumdi inn í vagninn. Allt rétt og satt. Svolítil áminning um fyrri daga þegar við krakkarnir hlustuðum á bílstjórana af óttablandinni virðingu.  Þeir dagar eru víst liðnir.

Færðu inn athugasemd