Vika þar til maður neyðist til að dröslast á kjörstað og merkja við einhvern listabókstaf. Er búinn að vera óviss lengi og við það að krossa við Samfylkinguna af gömlum vana undir þeim formerkjum að þar leynist enn leifarnar af Alþýðuflokknum. Sem er tómt rugl.
Veit að minnsta kosti að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn (Litli Sjálfstæðisflokkur) fá ekki atkvæði mitt. Og ekki Björt Framtíð því hún er opin í báða enda.
Líst hinsvegar best á Alþýðufylkinguna af minnstu framboðunum. Albaníu-Valdi fékk mig til að skrifa undir stuðningslista fyrir utan Bónus á Smáratorgi fyrir viku síðan. Viðurkenni að hafa verið aðeins kenndur nýkominn úr haustferð vinnunnar.
En já, ég hef loksins ákveðið mig. Píratar fá minn stuðning. Eru ekki aðeins óhefðbundin í nálgun sinni, heldur eini möguleikinn á annarri stjórn en pabbadrengjastjórninni sem hér hefur ríkt síðastliðin þrjú ár og fitnað eins og púkinn á fjósbitanum. Píratar verða að ná flestum atkvæðum og fá stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannssyni forseta.
Annars verður eignarhlutur ríkissins í bönkunum seldur á útsöluverði í helmingaskiptum. Heilbrigðiskerfið endanlega einkavinavætt. Menntun einungis gerð möguleg fyrir efnafólk. Aldraðir og öryrkjar enn einu sinni skyldir eftir út í skurði. Útgerðin áfram með frítt spil. Landbúnaðarkerfið áfram spillt og lokað. Innflutningur heftur með ofurtollum.
Ég meika slíkt ekki lengur!