Ég gerðist Pírati í kjörklefanum. Ég játa það. Ekki endilega upp á þá von að þau myndu taka þátt í fjögurra flokka stjórnarandstöðuflokkastjórn, heldur vegna þess að einhver verður að halda uppi fjörinu á þingi næstu fjögur árin. Vera með læti og rífa kjaft. Veita aðhald. Steyta hnefa og beina löngutöng framan í sviplausan þingheim og þingforseta á bjöllunni.
Hef algjörlega misst álit mitt á samlöndum mínum sem fylkja sér á bak við Sjálfstæðisflokkinn þrátt fyrir að forystufólk hans séu bæði í Panamaskjölunum eins og Sigmundur Davíð. Af hverju fékk hann einn verðskuldaða útreið en ekki hin tvö? Finnst eins og að fjölmiðlar hafi hlíft þeim óþarflega mikið því þau kunna að svara eins og vélmenni annað en Simmi sem er hinsvegar klaufskur fyrir framan linsur og hljóðnema.
Ömurlegt að tilheyra þjóð sem finnst bara fínt að liðið sem stjórnar eigi fé í erlendum skattaskjólum og ætli að einkavinavæða bæði bankana og heilbrigðiskerfið. Stytta áfram nám því það eru til peningar og allskonar, eins og ritari flokksins segir. Eina skýringin sem ég dett niður á er sú að þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur og að þessum hugleysingjum finnst vissara að heiðra skálkinn svo hann skaði þá ekki.
Efnahagsbati landsins er fenginn með erfiði vinstristjórnarinnar, fórnum almúgans í gegnum mögur ár eftir hrun og ferðamannabólunni sem mun springa á næsta kjörtímabili þegar útlendingarnir loks fatta að hér er ekkert að sjá og að alla aðstöðu skortir úti á landi. Það er ekki bara nóg að byggja hótel og veitingastaði í Reykjavík og vona það besta. Náttúruperlurnar úti á landi þurfa líka sína uppbyggingu og umgjörð.
Framsóknaríhaldsstjórnin hefur ekkert gert til að styrkja innviðina. Bara skarað eld að eigin köku og hækkað skatta á alla nema þá allra ríkustu sem fengu skattalækkun. Komu svo á eldgamaldags búvörusamningi í sovéskum stíl með innflutningshindrunum og ofurtollum. Engar bætur fyrir að rífa frá okkur umsóknina að Evrópusambandinu. Bara meiri einokun í nafni hagræðingar. Arna og Kú skilin eftir úti í kuldanum fyrir að voga sér í samkeppni gegn Mjólkursamsölunni.
Við erum eins og lítið þorp á Sikiley. Og ættum að haga okkur samkvæmt því. Láta haglabyssurnar gelta þegar okkur finnst við vera órétti beitt. Hvaða rugl er þetta að leggjast bara á bakið og biðja auðmjúk um smyrsl þegar yfirstéttin ríður okkur í ósmurðan rassinn?
Djöfull langar mig ekki til að hanga hérna næstu fjögur árin. Loksins er ég tilbúinn til að flytja af þessum spillingarklaka. Nú fer ég að líta til allra átta og finna mér annan samastað. Nenni ekki lengur að búa í mafíuríki þar sem engu skoti þarf að hleypa af til að kúga landann. Bara að ræskja sig duglega og vera frekur.