Einsleitnin er svo leiðinleg!

Á tímabili reyndi ég að vera virkur í athugasemdum og að mestu án öfga, haturs og reiði. Gerði mitt besta til að vera málefnalegur.  Allt kom fyrir ekki.  Ég var hæddur, mér hótað og óskað sviplegs dauða.

Gjörsamlega tilgangslaust að tjá sig á athugasemdakerfum netsins.  Þú verður alltaf sigldur í kaf og kallaður ljótum nöfnum.  Þeir sem þarna tjá sig setja enga síu á sjálfa sig.  Leyfa bara öllu gallinu að flæða upp úr iðrum sér án ritskoðunar.

Manni kann að þykja ýmislegt um annað fólk en það er algjör óþarfi að gaspra því yfir óravíddir internetsins.  Allt í lagi að halda því bara fyrir sjálfan sig.  Inn í litla kálhausnum sínum.

Fólk á rétt á að vera það sjálft án þess að ég fari að benda fingri að því og hrópa:  Þú ert svona og mér líkar það ekki!  Við erum bara eins og við erum og eigum fullan rétt á því án athugasemda frá öðrum.  Fögnum fjölbreytileikanum. Einsleitnin er svo leiðinleg!

Færðu inn athugasemd