Ég hef aldrei skilið símann. Ólst að mestu upp án hans í æsku. Hann birtist allt í einu í kringum fermingu á veggnum heima á Hábrautinni. Veit ekki af hverju. Vorum búin að vera án hans bróðurpart æsku minnar. Er reyndar til ein ljósmynd af mér að stelast í símann um það leiti sem ég var að byrja að ganga heima á Tunguvegi í Fossvogi. Var að sögn símaóður á þeim tíma og hringdi víst óvart til útlanda eitt skiptið.
Hvað um það. Hefði seint fengið mér farsíma nema í gegnum Domi vinnufélaga í Marel eftir Þjóðhátíð 1999. Nokia 5110. Hann gat reddað góðum pakka í gegnum Tal. Gömlu, finnsku símarnir voru fínir. Bara símtöl og SMS. Einfalt og gott. Hægt að missa þá í gólfið og skipta um framhlið að vild.
Svo urðu helvítis farsímarnir snjallir. Týndu takkaborðinu og fengu snertiskjá. Eins og það væri ekki nóg að vera nettengdur í tölvunum heima og í vinnunni. Var nú orðið nauðsynlegt að stara á skjá í strætó og fá hnykk á hálsinn? Troða myndavél og hljóðnema í tólið og heimabankanum líka?
Fyrir tuttugu árum æpti einhver trúarofstækismaður að mér að greiðslukortin væru merki dýrsins (djöfulsins). Svei mér þá ef hann hafði bara ekki talsvert til síns máls, nema að snjallsíminn er svo sannarlega orðinn verkfæri djöfulsins. Sjúkdómar og áfengi gengu frá Indíánum Ameríku. Tóbakið frá hvíta manninum. Snjallsíminn mun sjá um restina af okkur!
Ég nota minn snjallsíma aðallega sem vekjaraklukku. Gleymi honum eins oft og ég get og hata hann þess á milli. Enda hringir enginn lengur í mig og ég ekki í neinn. Við erum öll á facebook og mér er andskotans sama hvað fólk er að gera frá mínútu til mínútu sérhvern dag. Er ekki einu sinni með Snapchat eða Tinder í símahelvítinu.
Er núna alvarlega að hugsa um að skipta þessum hlunk út fyrir almennilegt G-Shock úr frá Casio sem er enn stillt upp í sölugluggum úrsmiða því þau einfaldlega neita að detta úr tísku rétt eins og Nokia 5110.