Litla systir okkar allra

Nú er rétt vika síðan síðast sást til Birnu Brjánsdóttur.  Skemmtilegrar stúlku með svartan húmor sem var bara á leið heim eftir gott djamm með bita frá Ali Baba og farsímann í rassvasanum síðastliðinn laugardagsmorgunn þegar hún hvarf.

Myndavélakerfi miðbæjarins er svo lélegt og strjált að ekki er hægt að sjá með vissu hvort Birna steig inn í Kia Rio bifreið Grænlendinganna sem eru núna í gæsluvarðhaldi grunaðir um hvarf hennar og þaðan af verra.  Styðjast verður við símagögn.

Miðað við tímann sem er liðinn og grunsemdir lögreglunnar um mögulega atburðarrás, þá er ólíklegt að Birna finnist á lífi.  Því miður.  Eins virkilega sárt og það er fyrir ættingja hennar og vini.  Fyrir hnípna þjóð sem hefur fylgst með leitinni að Birnu rétt eins og hún væri litla systir okkar allra.

Grímur Grímsson (Elliot Ness, Teddy Roosevelt, Commissioner Gordon) sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu hefur verið andlit lögreglunnar í málinu og staðið sig virkilega vel.  Hann er vongóður að í dag munu björgunarsveitirnar finna hana og stefnir að því að ljúka málinu.  Birna verður að finnast!

Helst vildi ég að játning og vitneskja um hvar Birnu er að finna yrði barin upp úr sjómönnunum sem sitja grunaðir í gæsluvarðhaldi og neita allri sök.  Hvernig dirfast þeir! En það má víst ekki.  Þeir eiga sinn rétt og hugsa eflaust sem svo að á meðan Birna finnst ekki þá munu þeir sleppa með skrekkinn.  Eða að minnsta kosti fá mun vægari dóm út frá líkum.

Færðu inn athugasemd