Sumir halda að ósekju að ég sé argasti kommúnisti og afturhaldsseggur. Þeim gæti ekki skjátlast meira. Hef ætíð verið mjög frjálslyndur í hugsun, sérstaklega þegar kemur að verslunarfrelsi. Skil engan veginn rökin fyrir rekstri ríkisrekinnar áfengisverslunar. Hvers konar kommúnismi er það!
Þetta batterí er botnlaus mjólkurkú fyrir skattheimtu ríkissjóðs. Keyrð áfram undir yfirskini forvarnarstefnu með himinháu vöruverði og slöku úrvali. Get ekki séð að þessi gjöld og skattar ríkisins fari allir í forvarnar – og meðferðarstarf.
Eins lítið traust og ég hef á ríkisstjórninni þá ber ég þó þá von í hjarta að loksins verði ÁTVR lagt niður og sterk vín, léttvín og bjór rati í hillur allra verslana sem það nenna að selja. Og í kjölfarið verði farið í að skera niður skatta og gjöld á sjálfsagðri matvöru sem áfengir drykkir eru.
Hér flæðir allt í eiturlyfjum sem eru bæði ódýrari og auðveldara að nálgast heldur en bjórdós í Ríkinu. Samt er þrjóskast við og haldið áfram með fáranlegar vínbúðir í eigu og rekstri ríkisins. Frekar bjór og léttvín heldur en hass, amfetamín eða hvít lína af kókaíni!
Hér er stæk forræðishyggja á ferð til þess eins gerð að róa huga fólks sem dreypir ekki á áfengi og átti kannski í vandræðum með áfengisneyslu sína hérna áður fyrr. Okkur hinum kemur það bara ekkert við. Við viljum okkar veigar á viðunandi verði og í sem flestum búðum.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/05/14/taprekstur_a_vinbudahluta_atvr/