Nokkrar ungar konur tjá sig um óttann við að ferðast einar eftir að kvölda tekur í Fréttablaðinu. Sumar af fenginni slæmri reynslu. Hinar vegna þess að samfélagið ætlast til þess að stelpur passi sig! Vari sig á öllum ljótu köllunum sem eru á ferli þarna úti.
Eins sorgleg og orð þessara ungu kvenna hljóma, þá er þeirra virkilega þörf réttum tveimur vikum eftir að Birna Brjánsdóttir hvarf úr miðbænum. Af hverju var ekki óhætt fyrir hana að rölta heim eftir skemmtun niður í miðbæ? Af hverju fékk hún ekki að vera í friði! Komast heim og hvílast eftir ævintýri næturinnar. Spjalla um þau við vinkonur sínar seinna um daginn.
Og af hverju er fólk að skrifa á netinu að hún hefði þurft að passa sig betur og fara heim með vinum sínum í stað þess að ráfa ein upp Laugaveginn? Af hverju eru sömu varnarorð ekki sögð í eyru ungra karlmanna?
Svo ruglað að gert er ráð fyrir að konur þurfi að passa sig betur en karlar á leið heim eftir dansleik. Eins og það sé fyrir fram þeim að kenna að ljótir karlar vilji ráðast á þær. Að konur verði einfaldlega að búast við áreiti og ofbeldi af hendi karlmanna eftir að skyggja tekur.
Sem skýrir af hverju oftar en ekki gerist það þegar ég mæti ungri konu á förnum vegi, að hún herðir ganginn rétt áður en við mætumst og horfir stíft niður í gangstéttina. Ég er augljóslega möguleg ógn. Feitur, miðaldra karlmaður á göngu. Karlar eins og ég eiga að vera á stórum bílum. Ekki að kjaga á gangstéttum borgarinnar. Og alls ekki mæta ungum konum.
Minningarganga Birnu Brjánsdóttur verður seinna í dag niður Laugaveginn og kertum fleytt á tjörninni. Búist er við margmenni og götum verður lokað. Á meðan sitja tveir grunaðir í gæsluvarðhaldi og neita sök. Algjörlega siðblindir og telja sig geta sloppið frá glæp sínum með þögninni.